Nýjum erlendum verkum hefur ekki beinlínis rignt á svið stóru leikhúsanna á liðnum misserum og því ástæða til að draga fram sparifötin áður en haldið er á bandarískt verk í Borgarleikhúsinu. Höfundur verksins, Annie Baker, var aðeins 27 ára þegar fyrsta verk hennar var frumsýnt í New York. Sex árum og nokkrum leikritum síðar, árið 2014, hlaut hún Pulitzer-verðlaunin fyrir Ræmuna. Það má geta þess að síðan hún fékk verðlaunin hafa tvö verk til viðbótar unnið til Pulitzer-verðlaunanna og tæpt ár er síðan Ræman var sýnd í Þjóðleikhúsinu í London. Þær mættu gjarnan vera tíðari, handritaferðirnar hingað til lands.
↧