Nú stendur yfir hin árlega tíð heilsuátaka þar sem landsmenn fjárfesta í líkamsræktarkortum og flykkjast þangað í von um að halda áramótaheit. Hreyfingu og heilbrigðum lífsstíl fylgir bætt mataræði og freistast margir til að leita á náðir fæðubótarefna til að ná markmiðum sínum. Ágæti þeirra er og hefur um árabil verið umdeilanlegt en einn liður í fæðubótarlífsstílnum er að fólk sporðrennir prótíni í umtalsverðu magni, meðal annars í formi prótínstykkja. Þykja þau prýðisgóð leið til að seðja hungrið milli mála og fá um leið skot af þessu mikilvæga byggingarefni vöðva í kroppinn.
Mikil bylting hefur orðið í framleiðslu prótínstykkja líkt og öðrum fæðubótarefnum á undanförnum árum þar sem þau eru orðin bragðbetri en þau voru í eina tíð en um leið hefur magn viðbætts sykurs í innihaldslýsingum virst minnka. Ekki er það þó raunin með öll þau ótalmörgu prótínstykki sem í boði eru í verslunum landsins. DV ákvað að kanna innihaldið í tólf stykkjum, sem valin voru því sem næst af handahófi, og finna má í heilsuvöruhorni Hagkaups í Kringlunni.
Skemmst er frá því að segja að flest þeirra reyndust, miðað við innihaldslýsingu, innihalda tiltölulega lítið af sykri. En það prótínstykki sem verst kom út innihélt þó sem nemur 9 sykurmolum, eða 18 grömm af sykri í 64 gramma stykki. Það sem best kom út inniheldur aðeins 1 gramm af sykri. Aðeins eitt íslenskt prótínstykki komst á blað. Það er Styrkur frá sælgætisverksmiðjunni Freyju sem framleitt er í samstarfi við athafnamennina Ívar Guðmundsson og Arnar Grant. Eitt 44 gramma stykki af Styrk inniheldur 13 grömm af sykri.
**Sjáðu myndirnar og úttektina í heild sinni í DV í dag.**