Taka á ákvörðun um fyrirkomulag launa borgarfulltrúa 17. mars næstkomandi. Við ákvörðun kjararáðs 29. október síðastliðinn um hækkun launa þingmanna brugðust borgarfulltrúar ókvæða við og ákváðu að hækka ekki laun sín í samræmi við þá hækkun, sem að öllu jöfnu hefði átt að eiga sér stað. Helst er horft til þess að tengja laun borgarfulltrúa við launavísitölu í landinu.
Kjararáð hleypti öllu upp
Laun borgarfulltrúa hafa miðast við 77,82 prósent af þingfararkaupi og nam sú upphæð tæpum 600 þúsund krónum fyrir ákvörðun kjararáðs. Kjararáð ákvað að hækka þingfararkaup upp í ríflega 1,1 milljón króna sem hefði þýtt að hækka hafði átt laun borgarfulltrúa upp í ríflega 850 þúsund krónur að óbreyttu. Það vildi borgarstjórn hins vegar ekki og samþykkti 15. nóvember að laun skyldu að sinni haldast óbreytt. Sú samþykkt hefur verið framlengd í tvígang en nú sér líklega fyrir endann á málinu.
Horft til launavísitölu
Líf Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, vonast til að hægt verði að taka ákvörðun um launakjör borgarfulltrúa í næstu viku. „Enn hefur ekki verið tekin nein ákvörðun hjá okkur. Við erum hins vegar að skoða útreikninga fjármálaskrifstofu borgarinnar hvað varðar það hvort hægt sé til dæmis að tengja laun borgarfulltrúa við launavísitölu og aftengja þau þannig við þingfararkaup. Það kemur líka til greina að halda áfram tengingu við þingfararkaup en lækka hlutfallið. Það er það sem við erum að skoða í augnablikinu. Við erum líka að skoða hvernig við getum haldið okkur innan Salek-samkomulagsins. Við berum vonir til að geta afgreitt þetta á fundi forsætisnefndar borgarinnar 17. mars næstkomandi.“
Líf segir að áður en til afgreiðslu komi muni vitanlega verða fundað með borgarfulltrúum og varaborgarfulltrúum og þeim kynntar tillögurnar og leitað viðbragða við þær. Reiknað er með að sá fundur verði haldinn í þessari viku.
Ekki gott að fulltrúar ákveði eigin laun
Eftir að starfsgreiðslur þingmanna voru lækkaðar í síðasta mánuði eru laun þingmanna í samræmi við þróun launavísitölu síðastliðinn áratug. Spurð hvort það muni hafa áhrif á ákvörðunina um með hvaða hætti laun borgarfulltrúa verða ákvörðuð svarar Líf því til að hún telji það ekki eiga að hafa áhrif. Hún bætir því við að hennar mat sé að það sé ekki gott að sveitarstjórnarfulltrúar séu að vasast í því að ákvarða eigin laun, þótt sveitarstjórnarlög segi svo til. „Það var bara ekki hægt að kyngja öllum þessum gríðarlegu launahækkunum, þessum stökkum sem kjör taka með ákvörðunum kjararáðs.“
Ekki víst að ákvörðunin verði afturvirk
Spurð hvort launabreytingar muni verða afturvirkar, þar eð nú séu liðnir fjórir mánuðir án þess að málið hafi verið klárað segir Líf að um það hafi ekki verið teknar ákvarðanir og hún sjái ekki endilega fyrir sér að þess gerist þörf. „Það skiptir máli hvort ákveðið verður að halda áfram tengingu við þingfararkaup með lægri prósentu. Ef við aftengjum laun borgarfulltrúa við þingfararkaup og tengjum þau við almenna launaþróun þá munum við ekki leiðrétta afturvirkt, það væri bara ný leið sem verið væri að fara. Mér finnst ekki einsýnt að það þurfi að leiðrétta launagreiðslur afturvirkt þó að ákvörðun yrði tekin um að halda við tengingu við þingfararkaup. Það getur hins vegar verið að einhverjir séu þeirrar skoðunar, margar starfsstéttir hafa fengið afturvirka leiðréttingu, eins og kennarar, og þá verður það bara skoðað.“
↧
Ákvarða launin sín í næstu viku
↧