Nítján ára stúlka frá Texas í Bandaríkjunum, Makenzie Wethington, fær tæpar 85 milljónir króna í bætur eftir að hafa lent í hörmulegu slysi á 16 ára afmælisdaginn sinn árið 2014.
Makenzie ákvað að gera sér dagamun þennan örlagaríka dag með því að skella sér í fallhlífastökk. Ekki vildi betur til en svo að fallhlífin hennar opnaðist ekki nema að hluta og steyptist Makenzie til jarðar á ógnarhraða.
Þótt ótrúlegt megi virðast komst hún lífs af en slasaðist þó mikið; hún hlaut innvortis meiðsl, brot á mjaðmarbeini og hryggbrot svo dæmi séu tekin.
Eftir slysið höfðaði Makenzie mál á hendur fyrirtækinu sem stóð fyrir fallhlífarstökkinu, Pegasus Air Sports. Sagðist hún ekki hafa fengið nauðsynlega þjálfun áður en hún fór í stökkið og að fallhlífin sem henni var úthlutað hafi ekki verið fallhlíf fyrir byrjendur, heldur lengra komna.
Dómari í málinu dæmdi Makenzie í hag og fær hún 400 þúsuund Bandaríkjadali fyrir líkamlegan skaða, 350 þúsund dali fyrir andlegan skaða og 10 þúsund dali sem hún hefur þurft að greiða í lækniskostnað.
↧
Hörmungar á afmælinu: Fær milljónir í bætur eftir slys í fallhlífarstökki
↧