Óhætt er að segja að langþráður draumur hjónanna Kristine Barnett og Michael Barnett hafi ræst í maí 2010 þegar þau ættleiddu stúlku að nafni Natalia Grace. Samkvæmt fæðingarvottorði var Natalia sex ára og hafði hún fæðst í Úkraínu en flutt til Bandaríkjanna tveimur árum fyrr.
Eftir að ættleiðingin gekk í gegn fór ótrúleg atburðarás í gang sem ekki enn sér fyrir endann á. Kristine og Michael fullyrða að Natalia sé fullorðin kona en ekki barn. Lögregla og saksóknarar eru ekki á sama máli. Eftir erfiða tíma þar sem Natalia er sögð hafa hótað og reynt að drepa hjónin flutti fjölskyldan til Kanada á meðan Natalie varð eftir í Lafayette í Indiana í Bandaríkjunum. Það vildi ekki betur til en svo að þau voru ákærð fyrir vanrækslu.
Natalia fæddist með fötlun og þjáist meðal annars af dvergvexti. Kristine lýsti atburðarásinni á ítarlegan hátt í viðtali við Mail Online.
Grunsamleg hegðun
Í viðtalinu kemur meðal annars fram að innan við ári eftir að ættleiðingin gekk í gegn hafi farið að bera á undarlegri hegðun hjá stúlkunni. Hún hafi til dæmis reynt að ýta Kristine á rafmagnsgirðingu og hellt klór í kaffið hennar. Þá hefði hún hótað að stinga hjónin meðan þau sváfu.
Hjónin segjast hafa farið með stúlkuna til lækna og sálfræðinga og árið 2012 hafi dómstóll í Marion-sýslu komist að þeirri niðurstöðu að Natalia væri að líkindum fædd árið 1989. Lögreglan í Tippecanoe-sýslu heldur því fram að Natalia hafi verið 9 ára barn þegar hún var skilin eftir í Indiana og þess vegna sæti hjónin ákæru fyrir vanrækslu. Kristine og Michael halda því hins vegar fram að hún hafi verið komin yfir tvítugt þegar hún var skilin eftir.
Atburðarásin minnir um margt á hryllingsmyndina The Orphan frá árinu 2009 þar sem ættleidd stúlka gerði fjölskyldu sinni lífið leitt. Síðar kom í ljós að hún var fullorðin. Í þessu tilviki er þó ekki um neinn skáldskap að ræða ef marka má frásögn Kristine og Michaels – frásögn sem ýmsir sem að málinu koma eiga bágt með að trúa.
„Kvikmyndin Orphan er nákvæmlega það sem gerðist. Hún skrifaði texta og teiknaði myndir þar sem hún sagðist vilja drepa fjölskylduna, rúlla þeim upp í teppi og koma þeim fyrir úti í garð,“ segir Kristine. „Hún stóð yfir okkur um miðja nótt og við áttum erfitt með svefn. Við földum alla beitta hluti,“ segir hún og bætir við að hún hafi séð með eigin augum þegar Natalie setti klór og hreinsiefni út í kaffið hennar. „Eitt sinn spurði ég hana hvað hún væri að gera og hún svaraði: „Ég er að reyna að drepa þig.“ Fjölmiðlar mála mig upp sem einhverskonar barnaníðing en staðreyndin er sú að það kemur ekkert barn við sögu hér.“
Smurði blóði á veggina
Kristine bætir við að Natalie hafi verið fullorðin kona og allt í fari hennar hafi bent til þess. „Hún hafði blæðingar, var komin með allar fullorðins tennurnar og stækkaði ekki um sentímetra sem þó gerist hjá börnum með dvergvöxt,“ segir hún. Þá bætir hún við að læknar hafi greint hana með andleg veikindi sem jafnan greinast aðeins hjá fullorðnum. „Hún stökk út úr bíl á ferð, smurði blóði á veggina og gerði hluti sem maður getur ekki ímyndað sér að barn geri,“ segir hún.
Þess er getið í umfjöllun Mail Online að Kristine og Michael hafi verið fyrirmyndarforeldrar. Þannig komu þau fram í viðtali við 60 Mínútur árið 2012 vegna sonar þeirra, Jacob, sem greindist með einhverfu tveggja ára. Hann var undrabarn í eðlisfræði og vakti gríðarlega athygli fyrir þekkingu sína á því sviði.
Þegar Natalia kom inn í líf fjölskyldunnar árið 2010 ráku þau hjónin dagheimili. Börn voru þeirra ær og kýr og segir Kristine að aldrei hafi annað staðið til en að Natalia yrði tekið fagnandi og opnum örmum.
![]()
„Ég vildi alltaf eiga stóra fjölskyldu en það gekk erfiðlega hjá mér að eignast sjálf börn. Þegar boðið kom um að ættleiða stúlkuna, sem þá var á fósturheimili í Flórída, ákváðu hjónin að bruna til Flórída þar sem gengið var frá nauðsynlegri pappírsvinnu. Þau fengu upplýsingar um að Natalia hefði búið í Bandaríkjunum í tvö ár og hefði fæðst í Úkraínu þann 4. september 2003. Hún þyrfti á heimili að halda strax því fyrri foreldrar hennar höfðu gefist upp á henni, af óútskýrðum ástæðum.
„Það var augljóst að hún þurfti á mikilli athygli að halda. Hún var taugaóstyrk,“ segir Kristine og bætir við að þau hjónin hafi veitt henni mikla athygli. Hana fór að gruna að ekki væri allt með felldu þegar hún sá stúlkuna nakta í fyrsta sinn. „Ég var að baða hana og tók eftir því að hún var með fullan hárvöxt á kynfærasvæðinu. Það var nýbúið að segja mér að hún væri sex ára en það var mjög augljóst að hún var eldri.“ Hjónin tóku eftir fleiru í fari stúlkunnar sem vakti athygli þeirra; hún lék sér ekki með dúkkur eða leikföng og sótti í félagsskap táningsstúlkna. Þá var orðaforði hennar mun betri en hjá jafnöldrum hennar og ekkert í tali hennar gaf til kynna að hún væri frá Austur-Evrópu. Hún talaði ekki með hreim og kunni ekki stakt orð í úkraínsku.
Sögð vera minnst 14 ára
Kristine segir að hana hafi grunað að Natalia væri unglingur en ekki barn. Hún hefði fundið blóðug föt sem bentu til þess að hún hefði blæðingar en væri að reyna að fela það. Svo fór að Kristine fór með Nataliu til læknis þar sem beinþéttnimæling leiddi í ljós að hún var að minnsta kosti 14 ára gömul. Kristine segir í viðtalinu að hún hafi í raun ekki kippt sér mikið upp við þessa niðurstöðu þó grunur hennar hefði að einhverju leyti fengist staðfestur. En það var hegðun Natalia í kjölfarið sem vakti óhug hjá Kristine og Michael.
Kristine lýsir því að árið 2011 hafi Natalia orðið árásarhneigð, hótað þeim lífláti og andleg heilsa hennar og hegðun tekið miklum breytingum. Þetta varð til þess að Natalia var lögð inn á sjúkrahús í nokkur skipti þar sem hún dvaldi í nokkra daga eða vikur í senn. Það var svo árið 2012 að Natalia reyndi að draga Kristine á rafmagnsgirðingu, að sögn Kristine. Um svipað leyti segir Kristine að Natalia hafi viðurkennt að hún væri mun eldri en hún segðist vera. Þá hafa þau hjónin pappíra undir höndum frá geðlækni þar sem stúlkan er sögð viðurkenna að vera 18 ára.
Það var svo í júní 2012 að hjónin fengu aldur Natalia leiðréttan hjá dómstólum í Marion-sýslu. Það gerðu þau svo hún gæti fengið viðunandi heilbrigðisþjónustu fyrir fullorðna. Samkvæmt niðurstöðunni var réttur aldur Nataliu metinn 22 ára – hún hefði fæðst 4. september 1989 en ekki 4. september 2003. Þegar þessi niðurstaða kom var Natalia metin fullorðin hjá yfirvöldum í Indiana og því ábyrg fyrir sjálfri sér.
Fluttu til Kanada
Kristine og Michael benda á að þrátt fyrir það hafi þau haldið áfram að styðja við hana og aðstoða hana. Þannig leigðu þau íbúð fyrir hana í ágúst 2012 og var hún undir eftirliti hjá Aspire Indiana sem er einskonar opinber heilbrigðisþjónusta Indiana-ríkis. Hún missti íbúð sína vegna ótilgreinds atviks og stigu hjónin þá aftur inn og leigðu fyrir hana íbúð í Lafayette svo hún yrði ekki heimilislaus. Kristine segir að þar hafi þær lagt á ráðin um að Natalia færi í skóla og sækti sér menntun til að eiga auðveldara með að fá starf. Kristine greiddi ársleigu fyrir Nataliu og sagði við hana að hún fengi fjárhagslegan stuðning í eitt ár til viðbótar. „Sem er það nákvæmlega sama og ég geri fyrir öll börnin mín.“
Þegar árið 2013 gekk í garð hafði Kristine gefið út sögu sonar síns, Jacob, undrabarnsins í eðlisfræði, sem var þá orðinn 21 árs. Þetta ár flutti fjölskyldan til Kanada, að sögn til að Jacob gæti lagt stund á nám í eðlisfræði í Waterloo í Ontario. Natalia varð hins vegar eftir í íbúðinni í Indiana. Kristine segir að um það leyti sem þau flutti til Kanada hafi Natalia verið hætt að svara símtölum frá henni. Hún segist hafa óttast að hún væri hætt að taka lyfin sín og léki sama leik og áður þegar hún þóttist vera barn við aðra fjölskyldu. „Ég hefði þvingað hana í meðferð en ég gat það ekki því hún var fullorðin.“ Kristine segist hafa heyrt í Nataliu síðast árið 2013 og þvertekur fyrir það að hafa yfirgefið hana.
Barn eða fullorðin?
Lögreglan í Tippecanoe-sýslu segir hins vegar að málið sé flóknara en Kristine lýsir. Þannig liggi fyrir vottorð frá lækni á Peyton Manning-barnaspítalanum sem framkvæmdi beinþéttnimælingu á Nataliu árið 2010. Samkvæmt þeirri mælingu var Natalie átta ára gömul. Önnur mæling, framkvæmd tveimur árum síðar, benti til þess að hún væri um það bil ellefu ára. Sjálf hafði Natalie samband við lögreglu árið 2014 þegar hún sagði að fjölskylda hennar hefði yfirgefið hana og farið til Kanada. Framburður hennar hafi verið trúverðugur og áreiðanlegur.
Óvíst er þó hvers vegna fimm ár liðu þar til rannsókn lögreglu lauk og ákæra var gefin út, en það gerðist þann 11. september síðastliðinn. Bæði Kristine og Michael voru handtekin en þeim var síðan sleppt gegn tryggingu. Ljóst er að ekki eru öll kurl komin til grafar í málinu en Kristine og Michael ætla berjast fyrir því að sanna sakleysi sitt í málinu. Líklegt þykir að önnur aldursgreining fari fram á Nataliu til að staðfesta, í eitt skipti fyrir öll, hvort hún sé barn eða fullorðin. Í frétt Mail Online kemur fram að óvíst sé hvar Natalie er niður komin í dag.