„Á þeim níu mánuðum sem ég hef verið í veikindaleyfi hef ég ekki heyrt frá yfirmönnum mínum, starfsmannastjóra né öðrum sem eru í forsvari hjá Tollstjóraembættinu, þetta er þá öll umhyggjan fyrir velferð starfsfólksins!“
Þetta segir Björgvin V. Björgvinsson tollvörður í aðsendri grein sem hann skrifar í Morgunblaðið í dag. Björgvin segir farir sínar af samskiptum við tollstjóraembættið ekki sléttar en hann er starfsmaður embættisins til 30 ára. Björgvin kveðst hafa lent í vinnuslysi í janúar 2018 sem orsakaði 20 prósenta örorku hjá honum í baki.
Versnaði um haustið
„Dagarnir hjá mér voru æði misjafnir og oft var ég með mikla verki. Um haustið þetta sama ár tók mér að versna og var þá svo komið að ég gat ekki sinnt verklegum hluta starfsins né klæðst skotheldu vesti, vesti þetta vegur 8,5 kg. Ekki var gerð nein athugasemd varðandi þetta hjá yfirmönnum mínum. Ég var í sjúkraþjálfun allt þetta ár en það virtist ekki hjálpa mér nema að litlu leyti.“
Það var svo þann 15. október að hann fékk vottorð frá heimilislækni um að hann gæti ekki klæðst skothelda vestinu við dagleg störf.
„Hinn 5. desember var hringt í mig frá einkafyrirtækinu Heilsuvernd þar sem ritari tjáði mér að ég skyldi mæta til trúnaðarlæknis og hvaða tími myndi henta mér. Þar sem ég var búinn að fá vottorð hjá mínum heimilislækni þá taldi ég enga ástæðu til þess að hitta trúnaðarlækni tollstjóra,“ segir Björgvin og vísar í lög um réttindi sjúklinga máli sínu til stuðnings. Segir hann að starfsmönnum tollstjóra beri engin skylda til að fara til trúnaðarlæknis.
Sendur í leyfi fyrirvaralaust
„Það var síðan hinn 4. janúar 2019 sem ég fékk tölvupóst frá fyrrverandi formanni Tollvarðafélagsins og núverandi yfirtollverði þess efnis að mér bæri að fara í veikindaleyfi frá og með 7. janúar 2019, ástæðan var sögð umrætt læknisvottorð frá 15. október 2018. Ég var því settur í veikindaleyfi fyrirvaralaust frá og með 7. janúar sl., þetta varð mér að sjálfsögðu mikið áfall og það fyrsta sem fór í gegnum hugann var að fá skýringar á þessari framkomu. Ég óskaði því eftir fundi með starfsmannastjóra. Umræddur fundur var haldinn þriðjudaginn 8. janúar þar sem mætt voru yfirtollvörður, starfsmannastjóri, formaður Tollvarðafélags Íslands og undirritaður. Efni fundarins var það að fá skýringar á þeirri stöðu sem upp var komin.“
Björgvin segir að skemmst sé frá því að segja að hann fékk engin svör við þeim spurningum sem hann bar upp, til dæmis hversu lengi hann ætti að vera í veikindaleyfi. Þannig hafi hann spurt starfsmannastjórann átta sinnum hver hefði tekið ákvörðun um að hann ætti að fara einhliða í umrætt veikindaleyfi. Það mun hafa verið aðstoðartollstjóri og segist Björgvin vera búinn að bíða eftir viðtali við hann í átta mánuði – án árangurs.
„Fyrrverandi formaður Tollvarðafélagsins og núverandi yfirtollvörður hafði lítið til málanna að leggja annað en að glotta að þeim skýringum sem ég lagði fram eins og til dæmis þeim er varða „réttindi sjúklinga til að velja sér lækni sem hentar best“. Formaður Tollvarðafélagsins kom með tillögu um hvort ég gæti verið í 80% vinnu og 20% veikindaleyfi en því var fljótsvarað af starfsmannastjóra „tollverðir geta ekki verið í hlutastarfi“. Það var því ákvörðun embættisins að senda mig fyrirvaralaust í veikindaleyfi, mér var enginn annar kostur gefinn. Ég var sem sagt kominn í veikindaleyfi og næstu mánuðir urðu mér mjög erfiðir andlega.“
Heppinn að vera á lífi eftir hjartaáfall
Þar með er ekki öll sagan sögð því lok mars á þessu ári var hann á göngu við heimili sitt þegar hann fékk mikinn verk fyrir brjóstið sem leiddi út í báða handleggi. Hann skildi ekki í fyrstu hvað var í gangi en áttaði sig á því að hann hlyti að vera á fá hjartaáfall.
„Þetta reyndist rétt því ég var fluttur á Landspítalann við Hringbraut með sjúkrabifreið beint á hjartadeild Landspítalans, ég fór síðan í aðgerð daginn eftir. Mér var tjáð af læknum eftir aðgerðina að ég væri heppinn að vera á lífi og þakka ég Guði fyrir það.“
Björgvin segir að margar spurningar hafi vaknað hjá honum þegar hann lá á Landspítalanum um það hvernig á því stæði að hann hafi fengið hjartaáfall. Hann hafði aldrei reykt og hafði engin líkamleg einkenni sem gætu bent til þess að hann vær í áhættuflokki varðandi hjartaáfall.
„Þegar ég hafði sagt læknunum mína sögu um framkomu embættisins við mig og þá andlegu krísu sem ég hafði gengið í gegnum á undanförnum mánuðum þá töldu þeir ekki ólíklegt að þetta hefði haft veruleg áhrif á þessi veikindi mín. Þessi einhliða ákvörðun hefur því skaðað mig fyrir lífstíð. Frá því að þetta gerðist þá hef verið á Reykjalundi í endurhæfingu. Því miður hefur batinn ekki verið mikill.“
Ekkert heyrt í níu mánuði
Björgvin er verulega óhress með tollstjóraembættið sem hann segir stæra sig af merkilegri mannauðsstefnu. Vísar hann í heimasíðu embættisins þar sem segir að tollstjóri beri umhyggju fyrir velferð starfsfólks.
„Á þeim níu mánuðum sem ég hef verið í veikindaleyfi hef ég ekki heyrt frá yfirmönnum mínum, starfsmannastjóra né öðrum sem eru í forsvari hjá Tollstjóraembættinu, þetta er þá öll umhyggjan fyrir velferð starfsfólksins! Í rúm 30 ár hef ég starfað hjá embættinu, þetta hefur verið ævistarf mitt. Vonandi eru yfirmenn og starfsmannahald stolt af sínum verkum, það munaði ekki miklu að þetta fólk hefði líf mitt á samviskunni!“