Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir harðlega nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem felur í sér alvarlega aðför að velferðarkerfinu. Þetta kemur fram í ályktun miðstjórnar ASÍ sem samþykkt var í vikunni.
„Skerða á réttindi atvinnuleitenda og stytta á bótatímabil atvinnuleysistrygginga úr 30 mánuðum í 24 mánuði. Þetta er alvarleg aðför að grundvallar réttindum launafólks,“ segir meðal annars. Þá er gagnrýnt að ekki standi til að heiðra loforð um aukin framlög til heilbrigðisþjónustunnar og að rekstur hennar verði áfram vanfjármagnaður.
„ASÍ tekur undir mikilvægi þess að setja þak á greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni en ítrekar mótmæli sín gegn því að sú breyting sé fjármögnuð að stærstum hluta með hækkun á kostnaði hjá megin þorra notenda og krefst þess að staðið verði við 50 þúsund króna árlegt kostnaðarþak.“
Þá eru gagnrýnd áform um fjölgun hjúkrunarrýma fram til ársins 2022. Áætlanir geri ráð fyrir að fjölgunin nemi einungis rúmlega helmingnum af áætlaðri viðbótarþörf fyrir ný hjúkrunarrými til ársins 2020.
Í ályktuninni eru einnig viðraðar áhyggjur af fækkun barneigna hér á landi undanfarin ár. Þrátt fyrir þá staðreynd séu stuðningskerfi við ungt fólk ekki efld, en þó er því fagnað að áformuð sé hækkun á hámarksgreiðslum til foreldra úr Fæðingarorlofssjóði í 600 þúsund krónur á mánuði í áföngum til ársins 2020.
↧
„Alvarleg aðför að réttindum launafólks“
↧